Smali

Through the Desert on a Horse With No Name

laugardagur, nóvember 23, 2002

Saga

Eftir matinn tók hann af borðinu, raðaði diskum, glösum og hnífapörum í uppþvottavélina, setti töfluna á sinn stað og vélina í gang. Það biðu engin verkefni eftir matinn önnur en að svæfa barnið, tæplega þriggja ára stúlku sem var ekkert æst í að fara að sofa nema pabbi færi líka að sofa. Pabbi sagði að það væri ekki hægt því rúmið væri svo lítið, ef hann kæmi upp í yrði ekkert pláss fyrir Bangsímon og Tuma tígur. Barnið skildi þetta og rak pabba svo með harðri hendi út úr herberginu sínu. Þá var bara eftir að gera upp við sig hvort væri betra að lesa bók eða horfa á sjónvarpið. Strangt til tekið var reyndar þörf á að renna með ryksugu yfir stofuna, en hann vissi að rykið yrði þarna líka á morgun og hann gæti alveg eins glímt við það þá. Svo kveikti hann á sjónvarpinu eftir að hafa reynt í nokkrar mínútur að sannfæra sig um að hann væri að lesa nýlega skáldsögu. Í raun starði hann á sömu síðuna allan tímann og reyndi að rifja upp fasta dagskrárliði sjónvarpsstöðvanna á þriðjudagskvöldum. Í fréttaskýringaþættinum var verið að segja frá íssölukonu í Bandaríkjunum sem fór í æðahnútaaðgerð á sjúkrahúsi í Texas. Eitthvað fór úrskeiðis í aðgerðinni og þegar nokkuð hafði runnið af blóði fékk konan hjartastopp og var í kjölfarið úrskurðuð látin. Því var hún flutt niður í líkgeymslu sem var í kjallara þessa sama spítala. Svo heppilega vildi til fyrir konuna að nýlega hafði verið ráðinn þar starfsmaður sem fannst það helst heillandi við sína nýju vinnu að vera mikið einn með líkömum hinna látnu. Þessi nýlátna æðahnýtta íssölukona varð honum of mikil freisting og því taldi hann rétt að eiga við hana mök samkvæmt hinni gamalkunnu reglu sem allir læra á berskuárunum: Þögn er sama og samþykki. Þá gerðist hins vegar það sem starfmaðurinn nýi hafði ekki reiknað með. Við brölt hans og hnoð gerðist eitthvað innra með konunni og hjarta hennar fór að slá að nýju. Hún varð að vonum undrandi þegar hún áttaði sig á hvernig málum var háttað og rak lífgjafa sinn snarlega út úr sér og geymslunni. Núna var hún að amerískum sið búin að ráða sér her lögmanna sem sóttu mál hennar gegn bjargvættinum, lækninum sem klúðraði aðgerðinni og lýsti hana látna og að sjálfsögðu sjúkrahúsinu sem réði þessa, að hennar viti, óhæfu menn til starfa. Og það var svo sem óumdeilanlegt að hún var ennþá með þó nokkuð af æðahnútum og ekki virtist hún sérstaklega líflaus. Hún virtist hins vegar nokkuð viss um að vinna öll málin þrjú og enginn þarf að vera í vafa um að það þýddi umtalsvert hærri fjárhæðir henni til handa en íslenska ríkið setur í menntamál á einu ári. Líklega þyrfti hún því ekki að selja ís í framtíðinni. Um svipað leyti og tannfarðaður fréttamaður sagði frá því að nú yrði gert hlé og síðan yrði öll sagan endurtekin með æsispennandi viðbótum af málaferlunum hringdi síminn.

Kannski nenni ég einhverntíma að halda áfram með þessa sögu...