Nú styttist í sumarfrí sem Smali hygst nota til að kynna sér smalamennsku innanlands og utan. Það verður skemmtilegt. Nú er allt vitlaust útaf því að maður í Englandi ætlar að skipta um vinnu og flytja til annars lands. Hann hefur ákveðið að sparka í bolta á nýjum vettvangi og það vekur miklu meiri athygli heldur en að forsætisráðherra Finnlands hafi sagt af sér vegna spillingar. Líklega er eitthvað bogið við fréttamat nútímans. Það eru yfirleitt sagðar langar "fréttir" af því þegar þessi sami maður fær sér nýja hárgreiðslu, en lítið heyrist um hluti sem varða trúverðugleika helstu leiðtoganna sem liggja undir grun um að hagræða leyniskýrsluupplýsingum til að fá olíu á slikk. Magnaður heimur það!!! Á 17. júní var Fálkaorðan afhent og eins og fyrr undrast Smali það mjög þegar verið er að verðlauna fólk fyrir að mæta í vinnuna, sumir eru vel að þessu komnir, hafa jafnvel unnið sjálfboðavinnu áratugum saman fyrir gott málefni meðan aðrir eru heiðraðir fyrir það eitt að vinna "störf í opinbera þágu". Hvað er það eiginlega, á maður að dást að fórnfýsi ráðuneytisstjórans? Fórnaði hann sér fyrir kerfið? Og hvað er með þessi endalausu verðlaun, Gríman, Eddan, íslensku tónlistarverðlaunin, myndbandaverðlaunin og allar bókmenntaverðlaunaafhendingarnar? Hvenær sjáum við múrara ársins, ræstitækni og leigubílstjóra? Það virðist vera hægt að fá verðlaun fyrir allt annað svo afhverju ekki? Spyr sá er ekki veit.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home