Smali

Through the Desert on a Horse With No Name

þriðjudagur, október 10, 2006



Fréttablaðið birti sérlega áhugaverða umfjöllun í gær (bls. 16). Svo virðist sem hvorki fleiri né færri en átta smalar séu skráðir í símaskrána. Greinilega er því töluverður vöxtur í þessari áður ört deyjandi stétt. Smalar virðast vera í tísku, sem er gott mál. Það skemmtilegasta við umfjöllunina er að allir segjast þessir smalar hafa lent í stappi með að fá titil sinn skráðan í símaskrá, en það þó tekist að lokum og allir virðast þeir hafa verið fyrstir til að finna upp á því að vera smalar. Stórmerkilegt og skyggir algerlega á umfjöllunina í greininni við hliðina, sem fjallar um minnkandi slaufunotkun stjórnmálamanna. Hver segir svo að blöðin séu uppfull af ómerkilegheitum?
Ég hef reyndar eftir áreiðanlegum heimildum að núorðið sé svo mikil ásókn í að komast í smalamennsku að það horfi til vandræða. Borgarbúar flykkist í réttir á haustin í svo stórum hópum að þeir þvælist hver fyrir öðrum í eftirleitum og smölun sem áður tók 3-5 tíma teygist nú upp í allt að hálfan sólarhring. Þegar féð er svo að lokum komið í rétt eftir þessa ærnu fyrirhöfn þarf að fara aftur og leita að glötuðum smölum og smala þeim. Vont ef satt er og vonandi efni í næstu smalagrein Fréttablaðsins.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home