Lélegur nautnaseggur
Konan mín var að komast að því um daginn að ég væri glataðasti matmaður í heimi. Eins og margir af gamla skólanum kem ég lítið nálægt eldamennsku á heimilinu og hef varla eldað síðan ég bjó einn á stúdentagarði fyrir áratug. Konan gerði sér grein fyrir því í samtali við vinnufélaga sína að alla okkar sambúð, sem slagar upp í áratug, hefði ég aldrei beðið sérstaklega um að hún eldaði einhvern ákveðinn rétt. Ég virðist semsagt ekki eiga neinn uppáhaldsmat, og þegar ég er spurður kem ég yfirleitt af fjöllum. Ég borða bara það sem er í matinn, með örfáum undantekningum. Líklega er það rétt að til séu tvær tegundir fólks, þeir sem lifa til að borða og þeir sem borða til að lifa.