Smali

Through the Desert on a Horse With No Name

miðvikudagur, febrúar 21, 2007


Klám


Ég er að fara í smá heimsókn til Liverpool á Englandi (ekki Liverpool í Rúmeníu). Svo sem ekki í frásögur færandi, nema vegna heiftarlegra viðbragða yfirvalda þar ytra. Um leið og það spurðist út að við, íslensk fjölskylda, værum að koma til borgarinnar brast á fjölmiðlafár. Hver samtökin á fætur öðrum lýstu yfir andstyggð á komu okkar til borgarinnar og allir sem vettlingi gátu valdið reyndu að nota yfirvofandi heimsókn okkar til að slá sig til riddara. Borgarstjórn Liverpool samþykkti samhljóða að þrýsta á lögregluyfirvöld að rannsaka hvort hin íslenska fjölskylda hyggðist veiða hvali meðan á dvöl þeirra stæði á enskri grund. Þó ekki hafi fundist stoð fyrir því í lögum að banna okkur að koma vegna hugsanlegs athæfis, munu hvalavinir samt hyggja á ýmiss konar mótmæli og aðgerðir meðan á dvöl okkar stendur. Við ætlum samt ekki að hætta við ferðina.

mánudagur, febrúar 19, 2007


Litli bróðir er bestur.

Í gær var haldið Íslandsmót í kaffismökkun, þar sem keppendur þurftu að greina á milli 72 tegunda af misgóðu úrvalskaffi. Til að koma í veg fyrir handskjálfta og taugaveiklun var þeim góða sið við haldið sem þekkist úr vínsmökkun að hrækja eftir hverja smökkun. Skemmst er frá því að segja að uppáhalds litli bróðir minn gerði sér lítið fyrir og skildi á annan tug keppinauta eftir í rykmekki og smakkaði sig upp í að verða Íslandsmeistari í kaffismökkun 2007. Eftir áratugaferil sem sælkeri hefur hann gert áhugamál sitt að spennandi ferli. Til hamingju. Til glöggvunar er bróðir minn standandi á myndinni hér fyrir ofan.