Hvar eru þau nú?Steven Francis Kanaly var einn af aðalleikurum hinna rómuðu
Dallas þátta sem ærðu heimsbyggðina frá 1978-1991. Kanaly lék hinn yfirleitt geðprúða Ray Krebbs, vinnumann á Southforkbýli Ewing fjölskyldunnar. Harðduglegan og jarðbundinn kúrekastrák. Þegar leið á þættina kom í ljós að hann var óskilgetinn sonur ættarhöfðingjans Jock Ewing og bróðir þeirra J.R. og Bobbys. Steve var viðloðandi seríuna nær allan tímann sem hún var framleidd. Hann hætti í þáttunum 1989, en tók þátt í gerð sjálfstæðu smáseríunnar War of the Ewings 1998. Steve er fæddur í mars 1946 og því nýorðinn sextugur. Hann hefur verið giftur sömu konunni síðan 1975 og verður það að teljast vel af sér vikið hjá amerískum leikara. Síðan Dallas þættirnir hættu hefur Steve ekki tekið að sér mörg hlutverk, eitt til tvö á ári í sjónvarpi, en verið þeim mun öflugri sem málari. Hann þykir mjög hæfur vatnslitamálari og myndir hans eru oftar en ekki boðnar upp í tengslum við hin ýmsu góðgerðarmálefni. Eins og persónu hans í Dallas sæmir býr hann á búgarði (reyndar í Kaliforníu) og ræktar þar avocado og appelsínur. Samkvæmt nýjustu heimildum vinnur hann um þessar mundir að ritun bókar um Dallas. Í nýlegu viðtali segir hann einnig frá því að hann sé í miklu sambandi við suma af meðleikurum sínum úr þáttunum, ekki síst Charlene Tilton (Lucy Ewing), Larry Hagman (J.R.) og Patrick Duffy(Bobby). Steve Kanaly er allavega ekki dauður úr öllum æðum og Dallas virðist ennþá vera ansi stór hluti af lífi hans.