Hvar eru þau nú?Þegar kosningaveturinn skellur á með fullum þunga með tilheyrandi leiðindum, ásökunum og óskiljanlegum talnasúpum er ekki úr vegi að reyna að lyfta andanum eilítið. Því hef ég sett stefnuna á að grafa upp einn fortíðardraug í hverri viku, a.mk. fram að kosningunum í vor. Þetta verða þó ekki kappar á borð við Verðbólgudrauginn, heldur gamlir gleðigjafar af ýmsum toga.
Sá fyrsti í röðinni er hinn geðþekki enski tónlistarmaður Stuart Leslie Goddard, sem líklega er betur þekktur sem Adam Ant. Adam var andlit sveitarinnar Adam & the Ants sem átti töluverðum vinsældum að fagna upp úr 1980 með lögum á borð við Antmusic, Prince Charming og Stand and Deliver. Sveitin leystist upp snemma á árinu 1982 og þá hóf Adam sólóferil sem fór bærilega af stað með tveimur hálfsmellum, Goody Two Shoes og Puss ´N Boots, en eftir það hefur leiðin verið niður á við. Eftir því sem færri lögðu eyrun við tónlist hans fór hann að streða við að leika í staðinn. Adam hefur leikið í allrahanda sjónvarpsþáttum og D-myndum, hann flutti til Hollywood í lok níunda áratugarins til að reyna að festa sig í sessi, en hápunkturinn á Hollywood dvöl hans er líklega ástarsamband sem hann átti með leikkonunni
Heather Graham, frekar en hans eigin leikrænu tilþrif. Sambandið leystist upp nokkurn veginn um leið og Graham varð frægari en hann. Adam flutti aftur heim og hefur haft frekar hægt um sig síðan á listasviðinu. Á nýju árþúsundi hefur hann þó ratað í fréttirnar öðru hverju sökum geðrænna vandamála. Hann var handtekinn árið 2002 á krá í London fyrir að ógna gestum með leikfangabyssu og breska sjónvarpið sýndi árið 2003 heimildaþátt um hann sem nefndist því skemmtilega nafni
The Madness of Prince Charming. Í síðasta mánuði kom út sjálfsævisaga Adams, Stand and Deliver og Very Best of diskur kom út um leið. Vonandi verður þetta til þess að hann rétti aðeins úr kútnum, en eins og sakir standa lítur út fyrir að maðurinn sen mér fannst alveg geðveikur á ellefta aldursárinu mínu sé í augnablikinu alveg geðveikur.