Smali

Through the Desert on a Horse With No Name

laugardagur, október 14, 2006



Tímaskekkja

Samtök herstöðvaandstæðinga (SHA) eru dugleg að senda frá sér ályktanir og hafa unnið mikið og oft gott starf gegnum tíðina. Samtökin halda einnig úti ágætri heimasíðu og gefa stundum út fréttabréfið Dagfara. Eitt truflar mig samt í kjölfar þróunar mála hér á landi og það er nafn samtakanna. Nú er enginn her hérna lengur en meginmarkmið samtakanna hefur alltaf verið herlaust Ísland. Það markmið hefur nú náðst þó ekki hafi brottförina borið að með þeirri reisn sem við hefðum óskað. Við erum reyndar ennþá í NATO, en annað megin markmið SHA og forvera þeirra síðustu hálfa öld hefur einmitt verið að losna þaðan, svo enn er nóg að berjast gegn. Er það vel, sem og allur friðarboðskapur þeirra.
En í guðanna bænum, skiptið um nafn!

miðvikudagur, október 11, 2006

Í bakkafullan lækinn?

Íþróttafréttamenn eru merkilegur söfnuður. Þeir virðast margir hverjir þjakaðir af minnimáttarkennd gagnvart starfi sínu og reyna því að hefja það upp með því að vefja umfjöllun sína í búning skrautyrða sem mörg hver eru hvimleið. Þó umfjöllun af þessu tagi sé ekki ný af nálinni, verð ég að minnast sérstaklega á eitt atriði. Orðskrípin sóknarlega og varnarlega hafa rutt sér til rúms í allri umfjöllun hin síðari ár og eru mjög til vansa. Lið sem hafa á að skipa góðri vörn eða sókn eru þannig varnar eða sóknarlega sterk. Þetta er vesældarleg tilraun til að gera mikið úr litlu og leggst þessi ósiður vonandi af sem fyrst. Annað sem vert er að benda á fyrst út í þessa sálma er farið er að þegar leikmaður á skot sem hittir ekki markið brennir hann af. Ef markvörður ver vítaspyrnu brennir skotmaðurinn ekki af. Og enginn lætur verja hjá sér heldur. Það er móðgandi fyrir sérhvern markvörð sem ver vítaspyrnu og skotmanninn einnig. Enginn vítaskytta lætur verja hjá sér.
Góðar stundir.


Hvar eru þau nú?

Þegar kosningaveturinn skellur á með fullum þunga með tilheyrandi leiðindum, ásökunum og óskiljanlegum talnasúpum er ekki úr vegi að reyna að lyfta andanum eilítið. Því hef ég sett stefnuna á að grafa upp einn fortíðardraug í hverri viku, a.mk. fram að kosningunum í vor. Þetta verða þó ekki kappar á borð við Verðbólgudrauginn, heldur gamlir gleðigjafar af ýmsum toga.
Sá fyrsti í röðinni er hinn geðþekki enski tónlistarmaður Stuart Leslie Goddard, sem líklega er betur þekktur sem Adam Ant. Adam var andlit sveitarinnar Adam & the Ants sem átti töluverðum vinsældum að fagna upp úr 1980 með lögum á borð við Antmusic, Prince Charming og Stand and Deliver. Sveitin leystist upp snemma á árinu 1982 og þá hóf Adam sólóferil sem fór bærilega af stað með tveimur hálfsmellum, Goody Two Shoes og Puss ´N Boots, en eftir það hefur leiðin verið niður á við. Eftir því sem færri lögðu eyrun við tónlist hans fór hann að streða við að leika í staðinn. Adam hefur leikið í allrahanda sjónvarpsþáttum og D-myndum, hann flutti til Hollywood í lok níunda áratugarins til að reyna að festa sig í sessi, en hápunkturinn á Hollywood dvöl hans er líklega ástarsamband sem hann átti með leikkonunni Heather Graham, frekar en hans eigin leikrænu tilþrif. Sambandið leystist upp nokkurn veginn um leið og Graham varð frægari en hann. Adam flutti aftur heim og hefur haft frekar hægt um sig síðan á listasviðinu. Á nýju árþúsundi hefur hann þó ratað í fréttirnar öðru hverju sökum geðrænna vandamála. Hann var handtekinn árið 2002 á krá í London fyrir að ógna gestum með leikfangabyssu og breska sjónvarpið sýndi árið 2003 heimildaþátt um hann sem nefndist því skemmtilega nafni The Madness of Prince Charming. Í síðasta mánuði kom út sjálfsævisaga Adams, Stand and Deliver og Very Best of diskur kom út um leið. Vonandi verður þetta til þess að hann rétti aðeins úr kútnum, en eins og sakir standa lítur út fyrir að maðurinn sen mér fannst alveg geðveikur á ellefta aldursárinu mínu sé í augnablikinu alveg geðveikur.

þriðjudagur, október 10, 2006

Þessi frétt í Fréttablaði dagsins vakti athygli mína fyrir myndatextann sem fylgdi henni. Svo virðist sem tískuhönnuðurinn Yves Saint Laurent hafi fengið hjartaáfall á götu í París og „setti það svartan blett á tískuvikuna sem stendur hátt um þessar mundir“ segir í blaðinu. Hvílíkt tillitsleysi hjá hönnuðinum heimsþekkta. Persónulega hélt ég að það væri hegðun sem gæti sett svarta bletti á uppákomur en ég veð greinilega í villu og svíma.



Fréttablaðið birti sérlega áhugaverða umfjöllun í gær (bls. 16). Svo virðist sem hvorki fleiri né færri en átta smalar séu skráðir í símaskrána. Greinilega er því töluverður vöxtur í þessari áður ört deyjandi stétt. Smalar virðast vera í tísku, sem er gott mál. Það skemmtilegasta við umfjöllunina er að allir segjast þessir smalar hafa lent í stappi með að fá titil sinn skráðan í símaskrá, en það þó tekist að lokum og allir virðast þeir hafa verið fyrstir til að finna upp á því að vera smalar. Stórmerkilegt og skyggir algerlega á umfjöllunina í greininni við hliðina, sem fjallar um minnkandi slaufunotkun stjórnmálamanna. Hver segir svo að blöðin séu uppfull af ómerkilegheitum?
Ég hef reyndar eftir áreiðanlegum heimildum að núorðið sé svo mikil ásókn í að komast í smalamennsku að það horfi til vandræða. Borgarbúar flykkist í réttir á haustin í svo stórum hópum að þeir þvælist hver fyrir öðrum í eftirleitum og smölun sem áður tók 3-5 tíma teygist nú upp í allt að hálfan sólarhring. Þegar féð er svo að lokum komið í rétt eftir þessa ærnu fyrirhöfn þarf að fara aftur og leita að glötuðum smölum og smala þeim. Vont ef satt er og vonandi efni í næstu smalagrein Fréttablaðsins.