Smali

Through the Desert on a Horse With No Name

miðvikudagur, júní 18, 2003

Nú styttist í sumarfrí sem Smali hygst nota til að kynna sér smalamennsku innanlands og utan. Það verður skemmtilegt. Nú er allt vitlaust útaf því að maður í Englandi ætlar að skipta um vinnu og flytja til annars lands. Hann hefur ákveðið að sparka í bolta á nýjum vettvangi og það vekur miklu meiri athygli heldur en að forsætisráðherra Finnlands hafi sagt af sér vegna spillingar. Líklega er eitthvað bogið við fréttamat nútímans. Það eru yfirleitt sagðar langar "fréttir" af því þegar þessi sami maður fær sér nýja hárgreiðslu, en lítið heyrist um hluti sem varða trúverðugleika helstu leiðtoganna sem liggja undir grun um að hagræða leyniskýrsluupplýsingum til að fá olíu á slikk. Magnaður heimur það!!! Á 17. júní var Fálkaorðan afhent og eins og fyrr undrast Smali það mjög þegar verið er að verðlauna fólk fyrir að mæta í vinnuna, sumir eru vel að þessu komnir, hafa jafnvel unnið sjálfboðavinnu áratugum saman fyrir gott málefni meðan aðrir eru heiðraðir fyrir það eitt að vinna "störf í opinbera þágu". Hvað er það eiginlega, á maður að dást að fórnfýsi ráðuneytisstjórans? Fórnaði hann sér fyrir kerfið? Og hvað er með þessi endalausu verðlaun, Gríman, Eddan, íslensku tónlistarverðlaunin, myndbandaverðlaunin og allar bókmenntaverðlaunaafhendingarnar? Hvenær sjáum við múrara ársins, ræstitækni og leigubílstjóra? Það virðist vera hægt að fá verðlaun fyrir allt annað svo afhverju ekki? Spyr sá er ekki veit.

sunnudagur, júní 15, 2003

F***ing in rhythm and sorrow

Það er nú orðið svo að smali er orðinn .tk líka. Smala fannst réttast að hafa Múrinn af Múrverjunum íslensku og því má sjá hvað smaladrengir hugsa gegnum www.murinn.tk og er það vel. Gott á hinn múrinn. Svo er bara að hafa alvarlega hægri slagsíðu á skrifunum svo allt verði vitlaust. Smali veit samt ekki hvort hann hefur samvisku í það.
Það er kominn tími á alvarlegri pælingar, t.d. er sumar og veðrið hefur verið allt of gott fyrir innivinnupúkann Smala (ótrúlegt að vera smali og vinna inni en þannig er það nú samt.) Smali heyrði nokkur af lögunum sem eiga að vera sumarsmelli í ár og fannst lítið til koma. Engir fóru þó eins hamförum í lágkúru og hinir rosknu Stuðmenn sem virðast staðráðnir í að gereyða því góða uppbyggingarverki sem þeir unnu á árum áður. Allt sem frá þeim kemur í seinni tíð (seinni tíð er frá u.þ.b. 1985) er með ólíkindum slappt, sem sést best á hvaða lög vekja stuð á böllum hjá þeim. Það eru eðlilega ekki nýju lögin. "Sumarsmellir" annarra eru eins og við er að búast af sumarsmellum, hvorki né. Vonandi að sveitir sem taka sig alvarlega fari að senda frá sér eitthvað almennilegt, t.d. er biðin eftir nýju efni frá 200.000 Naglbítum orðin allt of löng og því tilhlökkunarefni að ný skífa sé væntanleg. Smali ætti náttúrulega, fyrst hann er svona neikvæður, að sleppa því að hlusta á sumarlögin, en það er ekkert auðvelt að sneiða hjá því ef maður á útvarp á annað borð. X-ið er orðið að amerískri háskólastöð og þarafleiðandi ónýtt og í raun bara Rás 2 sem er hægt að hlusta á og þá bara stundum (A.m.k. er Smali ekki að fara að rífa sig upp um helgar til að hlusta á Guðrúnu Gunnarsdóttur, drottningu leiðindanna í söng og fjölmiðlun.) En svona gengur þetta fyrir sig og líklega er eina ráðið að hlaða niður áhugaverðu efni á netinu, útvarp er auðvitað orðið gamaldags í sjálfu sér. Brak og brestir, lygi og lestir, þannig eru flestir.