Smali

Through the Desert on a Horse With No Name

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Þegar Láki varð aríi

Þegar ég var ungur drengur var bókin um Láka jarðálf í miklu uppáhaldi hjá mér, enda er þar að finna margar góðar hugmyndir að hrekkjum. Eftir að ég óx úr grasi skildi leiðir okkar Láka ansi lengi, en svo kom hann aftur inn í líf mitt. Ég las Láka fyrir dóttur mína og bróðurson fyrir nokkrum árum og fylltist hryllingi og andstyggð við lesturinn, sá söguna í allt öðru ljósi en áður. Í bókarbyrjun er Láki svarthærður krullustrákur sem býr með foreldrum sínum í samfélagi jarðálfa. Foreldrarnir kyssa Láka á hverjum morgni og hvetja hann svo til illvirkja. Láki fer svo og hrekkir systkini í nágrenninu um nokkurt skeið uns hann verður leiður á því og fer að gera góðverk. Við það tekur útlit hans stakkaskiptum, hann missir skottið, fær slétt ljóst hár og eitthvað fleira. Í bókarlok er hann orðinn svo almennilegur að honum er boðið að búa með fjölskyldunni sem hann áður hrelldi. Og þarna er svo komið sögu að sagt er fullum fetum að Láki hafi orðið glaður "því nú átti hann loksins fjölskyldu". Hvað um alvöru pabba hans og mömmu sem elskuðu hann greinilega? Skítlegt eðli Láka og bókarhöfundar kemur þarna skýrt í ljós. Hann finnur sér bara venjulegri fjölskyldu og breytist í aría og þá er allt gott. Ojbara. Ef þú ert ekki ánægður með ástríka foreldra þína finnurðu þér bara nýja. Sóðaboðskapur.